Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 4. apríl 2013 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 2. mars 2012, til velferðarráðuneytisins, kærði  […] hrl., fyrir hönd […], kt.  […] og  […], kt. […], ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa frá 17. janúar 2012, um synjun ábyrgðar á kröfu kærenda á hendur þrotabúi Blutel ehf., kt. 660202-3740.

I.  Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð á kröfu kærenda á hendur þrotabúi Blutel ehf. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp 18. mars 2010 og var frestdagur 26. október 2009. Umrædd ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa var tekin á fundi 17. janúar 2012 og tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 2. febrúar 2012. Stjórnin synjaði kröfunni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, þar sem álykta mátti af gögnum málsins að kærandi […] hafi verið framkvæmdastjóri hjá hinu gjaldþrota félagi. Með vísan til þess að það var mat Ábyrgðasjóðs launa að kærandi […] hafi verið framkvæmdastjóri félagsins og að kærandi […] er maki hennar taldi sjóðurinn kröfu hans vera óréttmæta sökum tengsla hans við kæranda […], sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Krafa kæranda […] er tilkomin vegna launa fyrir tímabilið júlí–september 2008, kröfu um bætur vegna launamissis í þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi sem og kröfu um orlofslaun, samtals kr. 4.862.000. Krafa kæranda […] er tilkomin vegna launa fyrir október 2008, kröfu um bætur vegna launamissis í þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi sem og kröfu um orlofslaun, samtals kr. 3.606.260.

Þessari ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu hana til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 2. mars 2012. Kærandi […] kveðst hafa stofnað ásamt […] félagið Núll–níu ehf. árið 2002 en nafni félagsins hafi síðar verið breytt í Blutel ehf. Kærandi […] hafi verið í stjórn Blutel ehf. frá stofnun félagsins þar til í febrúar 2008 er hún sagði sig úr stjórn þess. Hún hafi jafnframt starfað hjá félaginu sem starfsmanna- og skrifstofustjóri frá upphafi fram til þess tíma er henni var fyrirvaralaust sagt upp störfum 14. október 2008. Enn fremur hafi kærandi […] verið hluthafi í félaginu. Í maí 2004 hafi hlutur hennar verið 20% og fór lækkandi þar til hún seldi hlut sinn í apríl 2008.

Í erindi kærenda til ráðuneytisins kemur fram að kærandi […] hóf störf hjá Blutel ehf. í apríl 2006 og var í fullu starfi við bókhald og fjármál þar til honum var sagt upp störfum í október 2008.

Enn fremur kemur fram í fyrrnefndu erindi að kærandi […] hafi þegar leitað til stéttarfélagsins VR í kjölfar uppsagnar hennar og í kjölfarið hafi kröfu þeirra beggja verið lýst í þrotabú Blutel ehf. Kröfu kæranda […]  hafi verið hafnað á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum, þar sem skiptastjóri fullyrti að hún hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra. Mótmælti lögmaður hennar afstöðu skiptastjóra. Krafa kæranda […] var samþykkt sem forgangskrafa.

Þá kemur fram í erindi kærenda að kærandi […] hafni því alfarið að hafa verið framkvæmdastjóri félagsins. Hún hafi hvorki verið skráð sem framkvæmdastjóri í hlutafélagaskrá né komið fram fyrir félagið sem slík. Í ráðningarsamningi hafi hún verið titluð managersem geti átt við fjölmargt. Fram kemur að kærandi […] telji að enska orðið yfir framkvæmdastjóra sé general manager.Orðið managergeti vel átt við office manager, þ.e. starfsmannastjóri, en því starfi hafi hún gegnt hjá félaginu. […] hafi verið framkvæmdastjóri félagsins þar til aðrir hafi tekið við félaginu og staðfestir hann að kærandi […] hafi aldrei gegnt starfi framkvæmdastjóra í yfirlýsingu sem fylgdi erindi kærenda.

Erindi kærenda var sent stjórn Ábyrgðasjóðs launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. apríl 2012. Með bréfi, dags. 24. maí 2012, ítrekaði ráðuneytið beiðni sína til stjórnar Ábyrgðasjóðs launa um umsögn vegna umræddrar stjórnsýslukæru. Barst ráðuneytinu svarbréf stjórnar, dags. 1. júní 2012.

Í umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa kemur meðal annars fram að afstaða sjóðsins hafi verið sú að synja bæri kröfu kærenda með vísan til 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Í umsögninni er tekið fram að afstaða stjórnar hafi meðal annars byggst á umsögn skiptastjóra frá 30. mars 2011 þar sem skiptastjóri hafni kröfu kæranda […] þar sem hún sé fyrrverandi framkvæmdastjóri hins gjaldþrota félags og hafi jafnframt setið í stjórn þess. Hún hafi haft prókúruumboð af hálfu félagsins fram til febrúar 2008. Enn fremur kemur fram að hún hafi stofnað félagið ásamt […] og verið hluthafi í félaginu fram til apríl 2008.

Tekið er fram að ráðningarsamningur kæranda […] við Blutel ehf. hafi verið samhljóða þeim ráðningarsamningi sem gerður hafi verið við […] en […] hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins samkvæmt hlutafélagaskrá. Í ráðningarsamningi kæranda […] hafi starfsheiti hennar verið managersem hafi jafnframt verið starfsheiti […] í ráðningarsamningi hans. Þá segir að sjóðurinn fallist á að hugtakið managereitt og sér hafi margræða þýðingu í ensku. Sjóðurinn telji hins vegar að þegar hugtakið sé skoðað í samhengi við innihald ráðningarsamningsins, það að hann sé orðrétt eins og ráðningarsamningurinn sem gerður hafi verið við […] sem óumdeilt gegndi stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu og af þeim upplýsingum sem kærandi […] bjó yfir telji sjóðurinn það leiða til þess að notkunin á enska orðinu managerí ráðningarsamningnum feli það í sér að átt hafi verið við stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu.

Máli sínu til stuðnings bendir Ábyrgðasjóður launa á að í ráðningarsamningi félagsins við annan starfsmann sé notast við annan starfstitil þar sem komið er forskeyti fyrir framan enska orðið managersem tilgreinir nákvæmlega hvert starfssvið viðkomandi starfsmanns sé. Með umsögn Ábyrgðasjóðs launa fylgdu meðal annars ráðningarsamningar tveggja starfsmanna hins gjaldþrota félags auk ráðningarsamnings kæranda […].

Með bréfi, dags. 8. júní 2012, var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Svarbréf kærenda barst ráðuneytinu 13. júlí 2012 þar sem framkomin sjónarmið voru ítrekuð. Í erindi kærenda er því haldið fram að ágreiningur hafi verið um kröfu kæranda […] þar sem skiptastjóri hafi ekki getað sannað að hún hafi verið framkvæmdastjóri félagsins. Umsögn skiptastjóra sé eingöngu ætluð til hliðsjónar og sé ekki rökstudd staðhæfing. Endanleg afstaða skiptastjóra hafi verið sú að hann tæki ekki afstöðu til kröfunnar þar sem hann treysti sér ekki til þess að fullyrða að kærandi hafi verið framkvæmdastjóri og ekki hafi verið til fjármunir til þess að leggja vinnu í að fá úr því skorið. Enn fremur er því hafnað að einungis framkvæmdastjórar séu með prókúruumboð enda sé það að mati kærenda ekki algild regla að sá sem sé skráður með prókúru sé framkvæmdastjóri. Þá var tekið fram að kærandi […] hafi setið í stjórn félagsins fram til febrúar 2008. Hún hafi því ekki getað haft áhrif á framvindu mála eftir þann tíma en rúm tvö ár liðu frá því hún hætti í stjórn og þangað til félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Í erindi kærenda eru raktar ástæður þess að ráðningarsamningur kæranda […] hafi verið efnislega samhljóða ráðningarsamningi […] sem skráður var sem framkvæmdastjóri félagsins. Rakin er forsaga málsins þar sem þau áttu hvort um sig helmings hlut í félaginu fram til ársins 2004 er þau seldu 60% hlut í félaginu til erlends félags. Áhersla hafi verið lögð á að þau störfuðu áfram hjá félaginu en að mati kærenda væri slíkt fyrirkomulag algild afstaða fjárfesta þegar fjárfest væri í félögum sem enn væru á uppbyggingar og undirbúnings stigi og því ekki komin í almennan rekstur. Í upphafi hafi ekki verið ákveðið hvaða hlutverk hvort um sig hefði innan félagsins en því hafi ráðningarsamningar þeirra verið samhljóða þar sem eingöngu hafi verið tilgreint að þau ættu að gegna einhverjum stjórnunarstöðum hjá félaginu eða með öðrum orðum átt að starfa sem manager. Af sömu ástæðu hafi laun þeirra verið þau sömu. Þessir samningar hafi verið gerðir í maí 2004. Síðar hafi verið ákveðið að […] yrði áfram framkvæmdastjóri en hvorki hafi laun hans verið hækkuð þótt hann hafi fengið þetta hlutverk né ráðningarsamningi hans breytt að öðru leyti. Í október 2006 hafi viðbótarhluthafar komið inn í félagið sem hafi viljað að kærandi […] og […] störfuðu áfram hjá félaginu. Ráðningarsamningar þeirra hafi verið endurnýjaðir og notast við sama orðalag og í fyrri ráðningarsamningum. Laun og kjör voru þau sömu hjá báðum eins og verið hafði í upphaflegu ráðningarsamningunum. Kveður kærandi […] að þetta fyrirkomulag hafi átt að gefa hluthöfum og fjárfestum sveigjanleika til að færa þau til innan félagsins á einfaldan hátt.

Með svarbréfi kærenda var lögð fram yfirlýsing frá endurskoðanda félagsins á árunum 2002–2007 þar sem fram kom að á þessum árum hafi […] verið eini framkvæmdastjóri félagsins samkvæmt þeim upplýsingum sem endurskoðandafélagið hafði. Enn fremur voru lögð fram afrit af samningum sem […] hafði undirritað fyrir hönd félagsins sem framkvæmdastjóri og ítrekað að […] hafi einn verið skráður framkvæmdastjóri samkvæmt hlutafélagaskrá á þessum tíma. Þá kemur fram í svarbréfinu að þar sé um að ræða opinber gögn sem sanna skýrt og greinilega hver var framkvæmdastjóri félagsins.

II.   Niðurstaða

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er heimilt að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til velferðarráðuneytisins.

 

Samkvæmt 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er það markmið laganna að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslu vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitenda. Kröfur þær er njóta ábyrgðar sjóðsins eru nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna. Ábyrgð sjóðsins er takmörkuð í 10. gr. laganna en samkvæmt 1. mgr. njóta kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota félags ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Ábyrgðasjóði launa er einnig heimilt samkvæmt 2. mgr. að hafna kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr., annarra skyldmenna þeirra eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti ef sýnt er fram á að kröfurnar séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla.

Mál þetta lýtur annars vegar að ágreiningi um hvaða stöðu kærandi […] raunverulega gegndi hjá hinu gjaldþrota félagi. Málið lýtur hins vegar að því hvort krafa kærandans […] um greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa teljist óréttmæt vegna fjölskyldutengsla við ætlaðan fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarmann Blutel ehf.

Ágreiningslaust er að kærandi […] var stofnandi að Núll–níu ehf., kt. 660202-3740,  ásamt […]. Nafni félagsins var síðar breytt í Blutel ehf. með sömu kennitölu. Enn fremur er ágreiningslaust að kærandi […] starfaði hjá félaginu ásamt […] en ágreiningur ríkir um hvaða stöðu kærandi […] gegndi hjá félaginu. Í málinu liggur meðal annars fyrir undirritaður ráðningarsamningur við kæranda […] á ensku þar sem meðal annars kemur fram að „the Company appoints the Employee to serve the Company as a Manager“.

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun launafólks og kröfu lífeyrissjóða vegna lífeyrisiðgjalda á hendur gjaldþrota vinnuveitanda, sbr. 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Byggist því ábyrgð sjóðsins að þessu leyti á ráðningarsambandi milli umrædds launamanns og vinnuveitanda en telja verður það eina af meginreglum vinnuréttar að ráðningu skuli annaðhvort staðfesta skriflega eða gera um hana ráðningarsamning. Tilgangur skriflegra ráðningarsamninga er einkum sá að auðvelda aðilum sönnunarbyrði um umsamin réttindi og skyldur og þannig jafnframt gert ráð fyrir að aðilar geti byggt rétt sinn á umræddum samningum komi síðar upp ágreiningur. Að mati ráðuneytisins verður því að ætla að ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á vinnulaunum byggist í aðalatriðum á efni skriflegra ráðningarsamninga milli launamanns og hins gjaldþrota vinnuveitanda þegar slíkir samningar liggja fyrir. Í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa er meðal annars tekið fram að með vinnulaunum í skilningi a–liðar 1. mgr. 5. gr. laganna sé fyrst og fremst átt við samningsbundin laun eins og þau séu skilgreind í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Eðli málsins samkvæmt verður að ætla að hið sama gildi þegar kemur að því að meta hvaða starfi viðkomandi launamaður gegndi hjá hinu gjaldþrota félagi.

Í skriflegum ráðningarsamningi kæranda […] við hið gjaldþrota félag kemur fram að hún hafi verið ráðin til að gegna starfi managerhjá félaginu. Deilt er um þýðingu enska orðsins manageren kærandi […] heldur því fram að orðið geti átt við fjölmargt og sé því rangt að staðhæfa að hún hafi verið ráðin sem framkvæmdastjóri hjá hinu gjaldþrota félagi. Í gögnum málsins kemur fram að Ábyrgðasjóður launa fallist á að orðið kunni að hafa fleiri en eina þýðingu í enskri tungu en þegar þýðing orðsins er metin í samhengi við innihald ráðningarsamnings hennar sé það að mati sjóðsins óumdeilt að hún hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá félaginu.

Hið gjaldþrota félag var einkahlutafélag sem skráð var hér á landi. Lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, kveða á um hlutverk framkvæmdastjóra slíkra félaga. Í 44. gr. laganna er kveðið á um að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skal hún annast um að skipulag félags og starfsemi þess sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fari félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins en í 41. gr. laganna er nánar fjallað um ráðningu framkvæmdastjóra. Þá er fjallað um starfsskyldur framkvæmdastjóra í  2. mgr. 44. gr. laganna þar sem meðal annars kemur fram að honum sé ætlað að annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Tekið er fram að hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Jafnframt skal framkvæmdastjóri sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti, sbr. 3. mgr. 44. gr. laganna. Að síðustu er tekið fram í 4. mgr. að einungis félagsstjórn geti veitt prókúruumboð.

Í athugasemdum við 44. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/1994 segir að greinin samsvari 52. gr. þágildandi laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Samkvæmt athugasemdum við 49. gr. frumvarps þess er í meðförum þingsins varð síðan að 52. gr. laga nr. 32/1978, fjallar ákvæðið sérstaklega um stjórn hins daglega rekstrar félags sem framkvæmdastjóri annast. Ekki er tilgreint hvað falli undir daglegan rekstur en tekið fram að í því efni verði að hafa hliðsjón af eðli starfseminnar og umfangi svo og venjum á viðkomandi sviði. Enn fremur er tekið fram að sú almenna greining sé gerð að ráðstafanir sem séu óvenjulegar eða mikilsháttar falli ekki undir hinn daglega rekstur. Slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt sérstakri heimild félagsstjórnar. Aðalábyrgð á umsjón og eftirliti með bókhaldi félagsins og stjórn fjármuna þess er sögð liggja á framkvæmdastjóra en eftirlitsskylda skuli hvíla hjá félagsstjórn. Þá virðist sem ekki hafi sérstaklega verið gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri hafi sjálfkrafa prókúruumboð heldur er veiting slíks umboðs einungis í valdi félagsstjórnar.

Umrædd lög giltu um starf framkvæmdastjóra hjá hinu gjaldþrota félagi sem hér um ræðir og þykir því eðlilegt að litið sé til enskrar þýðingar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á þeim lögum í tengslum við þýðingu á íslenska orðinu framkvæmdastjóri en ensku þýðinguna á lögunum er að finna á vefsíðu ráðuneytisins: http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7343. Þar hefur íslenska orðið framkvæmdastjóriverið þýtt sem enska orðið manager, sbr. til dæmis þýðing á framangreindu ákvæði 44. gr. laganna.

Að mati ráðuneytisins verður að ætla að það sé eðlileg krafa að við gerð samninga á ensku sem íslenskum lögum er ætlað að gilda um sé litið til enskra þýðinga á innlendum lögum í því skyni að tryggja samræmi við innlenda löggjöf þegar kemur að túlkun slíkra samninga. Enn fremur er til þess að líta að mati ráðuneytisins að í enskri þýðingu laga um Ábyrgðasjóð launa hefur íslenska orðið framkvæmdastjóri verið þýtt á ensku sem managing director, sbr. 10. gr. laganna en ensku þýðinguna á lögunum er að finna á vefsíðu velferðarráðuneytisins:http://eng.velferarraduneyti.is/media/axrobat-enskar_sidur/Wage_Guarantee_Fund_Act_No_88_2003_with_subsequent_amendments.pfd. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að 10. gr. gildandi laga er meðal annars vísað í hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samkvæmt lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

Í ljósi framangreinds er það því mat ráðuneytisins að leiða megi að því líkur að enska starfsheitið managerí umræddum ráðningarsamningi hafi átt við um starf framkvæmdastjórahjá félaginu í skilningi laga um einkahlutafélög. Á það ekki síst við þegar litið er til þess að í hvorugri þeirra ensku þýðinga á innlendri löggjöf sem getið er hér að framan eru þau ensku starfsheiti notuð sem kærandi telur rétt að nota yfir íslenska starfsheitið framkvæmdastjóri.

Þykir það jafnframt renna stoðum undir að kærandi […] hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hlutaðeigandi félags að umræddur ráðningarsamningur milli hennar og félagsins var efnislega samhljóða ráðningarsamningi milli […] og félagsins en ágreiningslaust er í málinu að […] gegndi starfi framkvæmdastjóra hins gjaldþrota félags. Þá kemur fram í gögnum málsins að bæði kærandi […] og […] eru stofnendur félagsins og benda gögn málsins til þess að þau hafi látið af störfum á svipuðum tíma hjá félaginu en hvorugs þeirra er getið sem stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra í hlutafélagaskrá 22. október 2008.

Það er mat ráðuneytisins að þær skýringar sem kærandi […] gefur í gögnum málsins á ástæðum þess að ráðningarsamningar hennar og […] hafi verið efnislega samhljóða, þar á meðal hvað starfsheiti varðar sem og launafjárhæðir, bílahlunnindi, árlega kaupauka og samkeppnisákvæði, samræmist ekki skýru orðalagi ráðningarsamninganna. Verður jafnframt til þess að líta að umræddir ráðningarsamningar voru endurnýjaðir skriflega í október 2006 en þá hafði áður verið ákveðið að sögn kæranda […] að […] gegndi starfi framkvæmdastjóra. Að mati ráðuneytisins verður að ætla að hefði ætlunin verið að gera greinarmun á störfum þeirra verður að teljast eðlilegt að slíkt hefði verið gert við endurnýjun ráðningarsamninga og þá einkum í ljósi megintilgangs skriflegra ráðningarsamninga sem telja verður að sé að færa sönnur á efni ráðningarsambands milli aðila. Er þeim þannig meðal annars ætlað að auðvelda sönnunarbyrði beggja aðila rísi síðar ágreiningur um réttindi og skyldur aðila og þá ekki síst í tengslum við hvaða starfi launamanni var ætlað að gegna hjá vinnuveitanda. Af gögnum málsins má ráða að slíkt hafi hins vegar ekki verið gert og ráðningarsamningar þeirra áfram hafðir efnislega samhljóða er þeir voru endurnýjaðir. Þegar litið er til tilgangs skriflegra ráðningarsamninga verður að mati ráðuneytisins að teljast ósennilegt að gengið hafi verið í tvígang frá samhljóða ráðningasamningum við tvo af starfsmönnum félagsins hafi umræddum starfsmönnum verið ætlað að gegna mismunandi störfum fyrir félagið. Þvert á móti verður að mati ráðuneytisins að ætla að með slíkri ráðstöfun hafi ekki verið ætlunin að gera greinarmun á störfum kæranda […] og […] hjá félaginu.

Þá liggur fyrir ráðningarsamningur milli félagsins og annars starfsmanns þess en þeirra sem þegar hafa verið nefndir en samkvæmt þeim samningi var sá starfsmaður ráðinn til starfa hjá félaginu sem Network Manager. Að mati ráðuneytisins var starfssvið hans þannig afmarkað í ráðningarsamningi með nánar tilgreindu starfsheiti en sá samningur ber jafnframt með sér að sá starfsmaður hafi verið ráðinn á öðrum kjörum en kærandi […] og […]. Þykir sú ráðstöfun jafnframt renna stoðum undir það mat ráðuneytisins að kærandi […] og […] hafi gegnt jafnsettum störfum hjá hinu gjaldþrota félagi þegar þau störfuðu þar og þá þannig að bæði hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra (e. manager) hjá umræddu félagi.

Að mati ráðuneytisins verður enn fremur ekki litið svo á að það að […] hafi skrifað undir nánar tiltekna samninga fyrir hönd félagsins sem framkvæmdastjóri þess eða hafi komið fram fyrir hönd félagsins gagnvart endurskoðendum þess hafi komið í veg fyrir að kærandi […] hafi jafnframt gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins í skilningi laga um einkahlutafélög sem og laga um Ábyrgðasjóð launa samhliða […]. Verður að ætla að þegar fleiri en einn gegna starfi framkvæmdastjóra félags skipti hlutaðeigandi aðilar með sér verkum og komi ekki ávallt allir fram fyrir hönd félagsins í tengslum við sömu verkefnin.

Það mat ráðuneytisins að kærandi […] hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá félaginu er jafnframt í samræmi við það sem kemur fram í umsögn skiptastjóra þrotabús hins gjaldþrota félags sem um er að ræða, sbr. bréf skiptastjóra til Ábyrgðasjóðs launa, dags. 30. mars 2011. Sú umsögn var veitt á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa en skiptastjóra ber að láta sjóðnum í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins. Í umræddri umsögn kemur meðal annars fram að kærandi […] hafi verið fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu sem og hluthafi í því. Af þeim sökum hafi skiptastjóri talið að krafa hennar ætti ekki rétt á sér og er vísað til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum, í því sambandi.

Þá telur ráðuneytið að það að kærandi […] hafi ekki verið skráð í hlutafélagaskrá sem framkvæmdastjóri félagsins verði ekki talið hafa áhrif við mat á því hvaða starfi hún er talin hafa gegnt hjá félaginu í skilningi laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 299/1997. Þar segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfest var af Hæstarétti að vanræksla á því að tilkynna um aðila sem framkvæmdastjóra félags til hlutafélagaskrár hafi ekki áhrif á stöðu hans hjá félaginu að þessu leyti. Það er mat ráðuneytisins að telja verður að umræddur dómur hafi fordæmisgildi í máli þessu enda þótt hann hafi verið kveðinn upp í tíð eldri laga þar sem ekki hafi verið gerðar efnislegar breytingar á ákvæðum laganna er takmarka ábyrgð sjóðsins á launakröfum framkvæmdastjóra félaga. 

Það að tæplega eitt ár hafi liðið frá því að kærandi […] lét af störfum fyrir hið gjaldþrota félag og þess dags er óskað var eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu kemur að mati ráðuneytisins ekki í veg fyrir að þau ákvæði laga um Ábyrgðasjóð launa er kveða á um að kröfur framkvæmdastjóra félaga njóti ekki ábyrgðar sjóðsins gildi.

Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að kærandi […] hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá hinu gjaldþrota félagi. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er það því niðurstaða ráðuneytisins að krafa kæranda […] á hendur þrotabúi Blutel ehf. fellur utan ábyrgðar sjóðsins.

Mál þetta lýtur hins vegar að kröfu kæranda […] um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna launa, bóta vegna launamissis í þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi sem og orlofslauna en Ábyrgðasjóður launa synjaði um ábyrgð sjóðsins með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa þar sem krafa hans væri óréttmæt vegna fjölskyldutengsla hans við kæranda […], fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarmanns hins gjaldþrota félags. Ágreiningslaust er í máli þessu að kærandi […], fyrrverandi framkvæmdastjóri,  stjórnarmaður og annar af tveimur stofnendum hins gjaldþrota félags er maki kæranda […].

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er sjóðnum heimilt að hafna kröfum maka framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota félags ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla. Eru tengslin við þá aðila sem taldir eru upp í 1. mgr. ákvæðisins því ekki nægjanlegt skilyrði þess að synja um ábyrgð sjóðsins á kröfum hlutaðeigandi heldur verður jafnframt að sýna fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til tengslanna. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa, er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu fyrir synjun á ábyrgð sjóðsins geti meðal annars skipt máli hvort umræddir einstaklingar eigi einhverra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, til að mynda í formi eignarhluta í félaginu hvort sem hlutaðeigandi eigi þann eignarhluta einn eða í sameign með þeim aðilum sem nefndir eru í 1. eða 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Enda þótt ekki sé að finna frekari leiðbeiningar í lögskýringargögnum þykir að mati ráðuneytisins þó ljóst af orðalagi athugasemda við ákvæðið að ekki sé um að ræða tæmandi talningu þeirra atriða sem geta skipt máli við mat á því hvort kröfur maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr. 10. gr. laganna, annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru verði taldar óréttmætar sem leiði til þess að synja skuli um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa.

Í því sambandi verður að líta til þess að ágreiningslaust er að kærandi […] starfaði við bókhald og fjármál fyrirtækisins. Gegndi hann því starfi þar til honum var sagt upp störfum í október 2008 en hann og maki hans, kærandi […], létu af störfum fyrir fyrirtækið á sama tíma.

Þykir jafnframt rétt að benda á að Ábyrgðasjóður launa óskaði skýringa hjá skiptastjóra þrotabús hins gjaldþrota félags á því hvers vegna krafa kæranda […] hafi verið samþykkt sem forgangskrafa. Í svarbréfi skiptastjóra til sjóðsins, dags. 16. nóvember 2010, kemur fram að þegar skiptastjóri hafi tekið afstöðu til forgangskröfu kæranda […] hafði hann ekki upplýsingar um að kærandi […] væri maki kæranda […]. Hefðu þær upplýsingar legið fyrir hefði skiptastjóri bent á það í umsögn sinni, dags. 22. júlí 2010, að krafan kynni að falla undir ákvæði 10. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Jafnframt er tekið fram að upplýsingarnar hefðu þó ekki breytt afstöðu skiptastjóra í ljósi þess að hann sem maki framkvæmdastjóra/fjármálastjóra fellur ekki undir 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þrátt fyrir framangreint er það mat ráðuneytisins að ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem renni stoðum undir að kröfur kæranda […] geti talist óréttmætar með tilliti til tengsla hans við kæranda […]. Í því sambandi verður að líta til þess að það telst ekki nægjanlegt skilyrði að kærandi […] hafi verið maki hennar heldur verður jafnframt að sýna fram á að kröfur hans hafi verið óréttmætar með tilliti til tengslanna. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi […] hafi haft einhverra slíkra hagsmuna að gæta sem leitt geti til þess að kröfur hans verði taldar óréttmætar í skilningi 2. mgr. 10. gr. laganna.

Að öllu þessu virtu er það mat ráðuneytisins að krafa kæranda […] verði ekki talin óréttmæt með tilliti til tengsla hans við kæranda […], fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sem leiði til þess að synja skuli um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfum hans.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 17. janúar 2012, um synjun ábyrgðar sjóðsins á kröfu […], kt. […],  á hendur þrotabúi Blutel ehf., kt. 660202-3740, um greiðslu vangoldinna launa, bóta vegna slita á ráðningarsamningi ásamt orlofi, skal standa. Ákvörðun stjórnar Ábyrgðasjóðs launa, dags. 17. janúar 2012, um synjun ábyrgðar sjóðsins á kröfu  […], kt. […],  á hendur þrotabúi Blutel ehf., kt. 660202-3740, um greiðslu vangoldinna launa, bóta vegna slita á ráðningarsamningi ásamt orlofi, skal felld úr gildi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum